Hraðmót HK- Umsögn

Sæl öll,

Við mættum með 75 Stjörnusnillinga í 14 liðum á Hraðmót HK sem fór fram í Kórnum. Spilað var í 5-manna liðum og lékum við gegn HK og Val. Spilað var í A, B, C, D, E og F styrleika og vorum við ýmist með 2 eða 3 Stjörnulið í hverjum styrkleika, innan hvers styrkleika höfðum við Stjörnuliðin okkar alveg jafn sterk að getu.

Strákarnir stóðu sig frábærlega og var gaman að sjá að í öllum Stjörnuliðunum fjórtán reyndu strákarnir að fara eftir áherslum okkar þjálfarana. Þ.e. að kasta út frá markmanni, reyna að halda boltanum vel innan liðsins og berjast fyrir hvern annan og leggja sig 100% fram. Það voru ýmist enginn varamaður eða bara einn varamaður í hverju liði og því fengu strákarnir mikinn spiltíma og voru alveg búnir á eftir að síðasta leik lauk 🙂 Við leggjum mikla áherslu á að allir fái að spreyta sig í sókn jafnt sem og í vörninni og skiptust strákarnir því á að vera í vörn eða sókn á milli leikja.

Þetta mót var síðasta mótið/æfingaleikur sem við tökum þátt í fyrir áramót.

Næstkomandi sunnudag, 1. desember, fáum við í 6.flokki tíma í Kórnum frá 16:00-17:30. Við munum reyna að gera eitthvað skemmtilegt í kringum þá æfingu, nánar um það síðar í vikunni.

A-lið
Stjarnan1, Stjarnan2 og Stjarnan3
Ég tel árganginn vera það gríðarlega sterkan að ég ákvað að vera með þrjú jafngóð Stjörnulið í A-liðakeppninni, gegn tveimur HK-liðum og einu A-liði frá Val. Stundum þróast það þannig að „holdningin“ á liðunum verða misgóð og eitt liðið náði alveg sérstaklega vel saman í dag og sigraði alla sína leiki. Strákarnir stóðu sig hins vegar allir alvegsvakalega vel á mótinu og sýndu að þeir eru orðnir alveg hrikalega góðir. Strákarnir eru alveg óhræddir að bæði halda bolta innan liðsins, sem og að taka andstæðinginn á einn á móti einum. Á köflum var hrein unun að sjá samspilið hjá strákunum og það er frábært að geta verið með 16 drengi úr árganginum sem eru mjög samkeppnishæfir í A-liðum á móti HK og Val. Allir leikirnir þar sem Stjarnan lék innbyrðis gegn öðru Stjörnuliði voru mjög jafnir og gríðarlega skemmtilegir á að horfa. Glæsilegt mót hjá þessum þremur Stjörnuliðum.

B-lið
Stjarnan4 og Stjarnan5
Strákarnir í B-liða keppninni mættu mjög erfiðum andstæðingum á mótinu og áttu því á tíðum undir högg að sækja sem var alveg skiljanlegt. Nokkrir drengjanna voru að spila í hærri styrkleika en áður fyrr og stóðu sig virkilega vel, þeir hafa staðið sig mjög vel á æfingum og höfðu mjög gott af því að spila gegn B-liðum hjá HK og Val. Ef strákarnir ætla að taka framförum þá er nauðsynlegt fyrir þá að spila  aðeins „upp fyrir sig“  af og til. Í svona erfiðum leikjum þá læra strákarnir að fleiri smáatriði fara að skipta máli, t.d. verður móttakan alltaf að vera góð, sendingarnar nákvæmari og þeir verða að vera „á tánum“ allan tímann. Strákarnir sýndu að leikskilningur þeirra er mjög góðurog þeir voru alltaf að leita að spili á næsta samherja, í staðinn fyrir að dúndra boltanum eitthvað fram. Það er mikilvægt að þeir haldi áfram á þessari braut en dragi þann lærdóm af mótinu að vera fljótir að snúa bæði í vörn þegar bolti tapast, og í sókn þegar bolti vinnst.

C-lið
Stjarnan6, Stjarnan7, Stjarnan8
Í öllum spilverkefnum tímabilsins hingað til höfum við blandað strákunum í þessum liðum í þrjú lið (í 5-manna leikjum) eða tvö lið (í 7 manna leikjum). Við gerðum það einnig á þessu móti og vorum við þjálfararnir mjög ánægðir með frammistöðu strákanna. Strákarnir eru farnir að spila mun betur saman sem liðsheild heldur en í byrjun tímabils. Einnig eru strákarnir farnir að bregðast mun betur við mótlæti heldur en fyrr í haust, þótt að þeir lendi undir þá gefast þeir aldrei upp og eru hættir að tuða í dómara eða skammast í samherja ef hann gerir mistök. Það er mjög mikilvægt að strákarnir haldi áfram á þessari braut. Það sem öll liðin eiga sameiginlegt að geta bætt hjá sér varnarleikur liðanna – það geta ekki allir leikmenn liðsins rokið fram í sóknina og skilið sóknarmenn andstæðingana eftir eina. Þetta kemur hins vegar allt með fleiri æfingum og leikjum. Glæsileg frammistaða hjá Stjarnan6, Stjarnan7 og Stjarnan8.

D-lið
Stjarnan9, Stjarnan10
Það var svakalega gaman að fylgjast með frammistöðu strákanna í þessum liðum á mótinu. Strákarnir hafa allir tekið miklum framförum undanfarið og þá sérstaklega hversu vel þeir eru farnir að spila saman og hversu vel þeir eru farnir að skilja leikinn. Strákarnir eru einnig farnir að átta sig betur á því hvenær þeir eiga sjálfir að fara með boltann og hvenær þeir eiga að gefa á næsta leikmann. Strákarnir skoruðu mörg glæsileg mörk og fögnuðu þeim að sjálfssögðu vel. Það er mjög mikilvægt að strákarnir mæti áfram vel á æfingar til að taka enn meiri framförum. Næstu skref hjá strákunum er að læra að spila aðeins betur út frá markmanni þegar hann er með boltann. Frábær frammistaða hjá Stjarnan9 og Stjarnan10.

E-lið
Stjarnan11, Stjarnan12
Strákarnir í báðum þessum liðum stóðu sig alveg frábærlega á mótinu og spiluðu glæsilegan fótbolta þar sem boltinn gekk hratt og vel á milli samherja. Það var virkilega gaman að sjá hvað strákarnir reyndu ávallt að leita að spili á næsta lausa samherja. Næstu skref hjá strákunum er að læra að finna strax andstæðing til að dekka þegar að boltinn tapast. Í 5 manna bolta er svo mikilvægt að allir séu “ á tánum“ bæði þegar boltinn tapast og sömuleiðis þegar boltinn vinnst og strákarnir snúa í sókn, þá þurfa strákarnir að nota breiddina á vellinum og fara á kantana. Glæsilegt mót hjá þessum tveimur liðum.

F-lið
Stjarnan13 og Stjarnan 14
Það var virkilega gaman að sjá frammistöðuna hjá Stjarnan13 og Stjarnan14 í dag. Þeir drengir sem eru tiltölulega nýbyrjaðir að æfa sýndu á mótinu að þeir hafa tekið miklum framförum, eru bæði farnir að læra hvert þeir eiga að hlaupa þegar boltinn vinnst/tapast og einnig farnir að reyna að spila boltanum á samherja. Þeir drengir í Stjarnan13 og Stjarnan14 sem hafa æft lengur (byrjuðu í 7.flokki) sýndu að þeir hefðu alveg getað verið í hærri styrkleikaflokki og sýndu glæsilega takta í leikjunum. Frábært mót hjá öllum strákunum og vonandi mæta þeir vel á æfingar til þess að bæta sig enn frekar.

Kveðja,
Halldór, Veigar Páll, Hinrik og Daníel
halldor.emilsson86@gmail.com

Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd