Tímabilið 2013/2014 – Pistill

Kæru foreldrar og forráðamenn,

Eins og áður hefur komið fram þá hefst nýtt tímabil á mánudaginn í næstu viku. Ráðning á þjálfurum fyrir 5. og 6.flokk er loksins orðin klár og mun ég þjálfa 6.flokk áfram og 5.flokkur verður í höndum Unnars Jóhannssonar sem kemur til okkar frá Fram og er frábær þjálfari. Hér að neðan er smá pistill um liðið tímabil, nokkrir punktar um hvorn árgang fyrir sig ásamt æfingatöflu árganganna á næsta tímabili.

Tímabilið 2013/2014
6.flokkur stóð sig alveg frábærlega á tímabilinu og það var alveg svakalega gaman að þjálfa drengina. Við þjálfararnir erum gríðarlega stoltir af frammistöðu drengjanna, háttvísi þeirra og þeim framförum sem þeir tóku á tímabilinu. Flokkurinn var líklega sá fjölmennasti í sögu Stjörnunnar með um 105 skráða iðkendur. Það var í nógu að snúast hjá 6.flokki á tímabilinu og var fyrsta verkefnið að spila æfingaleik við FH í lok september. Í byrjun október fórum við á virkilega skemmtilegt 5-manna Fífumót hjá Breiðablik og síðar í sama mánuði fórum við á 7-manna Keflavíkurmót í Reykjaneshöllinni. Í nóvember spiluðum við á móti HK og Val í Kórnum og í lok nóvember héldum við stórskemmtilega æfingu í Kórnum þar sem nokkrir leikmenn meistaraflokks tóku þátt í æfingunni og gáfu strákunum áritanir að æfingu lokinni.

Í janúar og febrúar spiluðum við æfingaleiki við HK og Fjölni og í mars héldum við norður á Akureyri á Goðamót Þórs sem fór fram yfir heila helgi og var frábærlega skemmtilegt. Síðar í þeim mánuði tókum við þátt í Hamborgarabúllumóti KR og héldum einnig stórskemmtilega æfingu í Kórnum þar sem foreldrar og systkini fengu að vera með. Í apríl héldum við svo Stjörnumót TM sem var gríðarlega fjölmennt og heppnaðist frábærlega og sýndi það mót hversu gríðarlega öflugt foreldrarstarfið er í kringum flokkinn. Í maí fórum við svo á VÍS mótið í Laugardalnum og í júní fór yngra árið á frábært Selfossmót og eldra árið á magnað Shellmót. Við „slúttuðum“ svo tímabilinu með því að fara á Fram-Mótið í lok ágúst.

2004 árgangurinn
Það sem einkennir þennan árgang fyrst og fremst er hversu ótrúlega áhugasamir drengirnir eru. Síðastliðin 2 ár hefur mætingasókn verið alveg gríðarlega góð, en af ca 45 skráðum drengjum hafa yfirleitt um 40 verið að mæta á hverja einustu æfingu og yfirleitt um 42-45 verið að mæta á hvert einasta mót eða æfingaleik. Stór hluti strákanna mætir mjög tímanlega á æfingar til þess að æfa sig aukalega og margir æfa sig einnig mikið aukalega fyrir utan hefðbundna æfingatíma. Þessir drengir hafa tekið sérstaklega miklum framförum. Hegðun drengjanna hefur nær undantekningalaust verið algjörlega til fyrirmyndar, strákarnir eru frábærir liðsfélagar og miklir karakterar. Ofan á þetta allt saman, þá er árgangurinn án nokkurs vafa einn sé allra besti á landinu í knattspyrnu. Það er magnað afrek hjá Stjarnan1 að vinna Shellmótstitilinn og er það einungis í annað skipti í sögu félagsins sem það næst. Árangur, frammistaða og spilamennska Stjarnan2, Stjarnan3, Stjarnan4 og Stjarnan5 á Shellmótinu undirstrikar ekki síður hversu góður árgangurinn er í fótbolta.

Stór hluti drengjanna (ca 15-20 drengir) getur spjarað sig virkilega vel í hæsta getuflokki sem sýnir hvað breiddin í árganginum er svakalega mikil. Það er alls ekki langt í að næsti hópur komist í sama getuflokk, strákunum eru allir vegir færir ef þeir æfa sig nógu mikið. Strákarnir sem hafa yfirleitt verið að spila í neðri getuflokkum hafa tekið alveg ótrúlegum framförum og hefur verið virkilega gaman að fylgjast með því. Ég þori að fullyrða að við eigum langbestu markmennina á öllu landinu enda hafa þeir verið mjög samviskusamir að mæta á markmannsæfingar en einnig hafa þeir verið duglegir að spila af og til sem útileikmenn á æfingum sem er mjög mikilvægt fyrir nútíma markmenn.

Eins og áður hefur komið fram, þá mun ég ekki fylgja drengjunum uppí 5.flokk heldur þjálfa 6.flokk áfram og kveð þessa snillinga með miklum söknuði. Þessi árgangur er alveg einstakur og það hafa verið algjör forréttindi og alveg hrikalega gaman að þjálfa snillingana ykkar sl. 2 ár og mun ég án nokkurs vafa fylgjast vel með þeim á vellinum á komandi árum. Ég vil einnig þakka ykkur foreldrunum fyrir frábært samstarf sl. 2 ár, það hefur verið virkilega ánægjulegt að starfa með ykkur. Strákarnir eru að fara í frábærar hendur hjá Unnari Jóhannssyni sem hefur þjálfað hjá Fjölni, Fram og í Danmörku (hjá sama klúbbi og undirritaður). Ég þekki vel til Unnars og veit að hann er frábær þjálfari og mun gera flotta hluti með strákana.

Fyrsta æfing hjá 5.flokki verður mánudaginn 8. september og mun 5.flokkur æfa á mánudögum, þriðjudögum, fimmtudögum annað hvort frá 15-16 eða 17-18 og á laugardögum frá annað hvort 10-11 eða 11-12. Tímasetningar verða auglýstar á næstu dögum.

2005 árgangurinn
Það hefur verið svakalega gaman að þjálfa 2005 árganginn á liðnu tímabili og því hlakka ég mjög mikið til að þjálfa strákana áfram á næsta tímabili, en þá færast þeir á eldra ár í 6.flokki. Það voru um 55 drengir skráðir í flokkinn á síðasta tímabili, sem er svakalegur fjöldi. Hins vegar er ekki nema kannski 20 strákar sem voru með frábæra mætingasókn, aðrir 20 voru með fína mætingasókn og ca 15 drengir mættu bara af og til. Strákarnir eru að sjálfssögðu í þessu á mismunandi forsendum og sýnum við þjálfararnir því skilning, sumir hreinlega vilja bara mæta af og til, aðrir komast bara stundum á æfingar vegna annara tómstunda – og er það allt saman hið besta mál. Ef strákarnir hins vegar vilja taka auknum framförum og bæta sig í fótbolta, þá er gríðarlega mikilvægt að þeir mæti vel á sem flestar æfingar sem og að þeir reyni að æfa sig aukalega fyrir utan hefðbundinn æfingatíma.

Breiddin í árganginum er mjög mikil, það eru ca 15-17 leikmenn sem eru af mjög svipaðri getu og geta allir spjarað sig mjög vel í hæstu getuflokki. Á eftir þessum drengjum komur stór hópur sem hefur tekið alveg gríðarlegum framförum á tímabilinu og á mjög stutt í land með að komast í næsta getuflokk – það hefur verið virkilega gaman að fylgjast með framförunum hjá þessum strákum. Strákarnir sem hafa verið í neðstu getuflokki hafa flestir einnig tekið miklum framförum og velta framfarirnar mikið á því hversu duglegir strákarnir eru að æfa og mæta á æfingar.

Strax í byrjun síðasta tímabils komu upp ófá atvik þar sem hegðun hluta drengjanna var algjörlega ólíðandi. Stríðni, óhlýðni, ljótar tæklingar, hefnibrot, óvirðing í garð liðsfélaga og jafnvel slagsmál voru á meðal atvika sem komu upp hjá þessum hluta drengjanna. Svona atvik eru náttúrulega algjörlega ólíðandi hjá okkur þjálfurunum og höfum við þjálfararnir unnið mikið í því með strákunum að bæta þetta. Þessi hópur strákanna hefur bætt sig alveg gríðarlega og er það núna einungis örsjaldan sem strákarnir „brjóta af sér“. Drengirnir eiga því mikið hrós skilið fyrir bætta hegðun og vonandi halda þeir áfram á sömu braut. Tek það skýrt fram að þetta er einungis lítill hluti af strákunum – hegðun flestra drengjanna er yfirleitt alltaf til mikillar fyrirmyndar og eiga þeir að sjálfssögðu mikið hrós skilið fyrir það.

Núna eru strákarnir í þessum árgangi komnir á eldra ár í 6.flokki og því gerum við þjálfarnir enn meiri kröfur á strákana. Við munum kenna þeim enn meira krefjandi æfingar en áður og sömuleiðis krefjast meiri aga á æfingum og í leikjum frá þeim.

Fyrsta æfing hjá 6.flokki hefst á mánudaginn 8. september. Það verða allar æfingar tvískiptar og mun eldra árið (2005 árgangur) æfa á eftirfarandi dögum og tímum:
Mánudagar 17:00-18:00 Aðalvöllur
Miðvikudagar 16:00-17:00 Aðalvöllur
Laugardagar 10:00-11:00 Minni völlur

Skíni Stjarnan.

Kveðja,
Dóri, Veigar, Hilmar, Hinrik, Daníel og Helgi
halldor.emilsson86@gmail.com

Auglýsingar
Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.

3var við Tímabilið 2013/2014 – Pistill

  1. Þorleifur sagði:

    Já vel mætl og takk sömuleiðis Dóri, Hilmar og Veigar.

  2. Elías sagði:

    Takk þjálfarar fyrir ykkar vinnu á tímabilinu. Þið eruð að gera frábæra hluti með þessa stráka

  3. Pálmi sagði:

    Takk fyrir frábæran flokk þið mögnuðu þjálfarar! Magnús Pálmi hlakkar sérstaklega til að komast í 6. flokk 2020 og fá að njóta krafta ykkar. Ég skal vera póstmeistari ef þið verðið ennþá á staðnum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s